Undirritun viljayfirlýsingar, mynd: Róbert Reynisson.

Viljayfirlýsing um lífsgæðakjarna

Til stendur að byggja á þriðja þúsund íbúðir auk hundruða hjúkrunarrýma á uppbyggingareitum sem hafa verið skilgreindir sem sérstakir „lífsgæðakjarnar” fyrir eldri borgara í Reykjavík. Borgarstjóri skrifaði á föstudag undir viljayfirlýsingar um uppbyggingu á fjórum stöðum í borginni þar sem þróuð verður áhugaverð ný nálgun á húsnæði og þjónustu fyrir fólk á besta aldri.

Þorpið vistfélag er eitt þeirra félaga sem eru með lóð fyrir lífsgæðakjarna á einum af reitum sínum á Ártúnshöfða.

„Framundan er stórfelld uppbygging lífsgæðakjarna víða um borgina. Á teikniborðinu eru allt að 2600 nýjar íbúðir auk hjúkrunarrýma. Aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast og landinn að eldast, því er mikilvægt að haga uppbyggingu fyrir eldra fólk í borginni í takt við það,“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri.

Kallað var eftir samstarfsaðilum um þróun og uppbyggingu á lífsgæðakjörnum í maí 2023 en nú eru fjögur teymi farin af stað.

Hvernig vill eldra fólk búa?
Lífsgæðakjarnar er heiti yfir nýja nálgun á húsnæði sem er einkum hugsað fyrir eldra fólk þar sem áhersla er á fjölbreytt búsetuform. Eignaríbúðum, leiguíbúðum og jafnvel hjúkrunarrýmum er raðað saman í aðlaðandi umhverfi með aðgengi að fjölbreyttri þjónustu og í bland við íbúðarhúsnæði fyrir aðra aldurshópa. Markmiðið er að tryggja áhugavert og aðlaðandi umhverfi, samveru og öryggi um leið og komið er til móts við ólíkar þarfir.

Frá undirritun viljayfirlýsinga
Skrifað var undir á fyrirhuguðum uppbyggingarlóðum og eru myndirnar teknar við það tilefni. Með viljayfirlýsingunni lýsa aðilar og Reykjavíkurborg því yfir að þeir séu tilbúin til að taka þátt í skipulagsvinnu og viðræðum varðandi þróun lífsgæðakjarna. Meta á hvort að það sé fýsilegt að byggja upp lífsgæðakjarna á lóðunum. Stefnt er að því að niðurstaða liggi fyrir innan sex mánaða frá undirritun yfirlýsingarinnar. Niðurstaðan verður lögð fyrir sérstakan starfshóp sem stofnaður hefur verið innan Reykjavíkurborgar vegna verkefnisins.

Guðný María Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri skipulags og umhverfismála og Sigurður Smári Gylfason, framkvæmdastjóri skrifuðu undir fyrir hönd Þorpsins vistfélags vegna mögulegrar uppbyggingar á einni af lóðum félagsins á Ártúnshöfða.

„Í okkar huga er Ártúnshöfði frábær staðsetning fyrir nýjan Lífsgæðakjarna vegna nálægðar við náttúruna og alla þá þjónustu sem er til staðar á Höfðanum eins og heilsugæsla, verslun, veitingar ofl. Í þessum nýja borgarhluta, sem byggður verður á umhverfisvottuðu skipulagi, verða græn svæði innan um þétta byggð auk þess sem gert er ráð fyrir Krossmýrartorgi þar sem stoppistöð Borgarlínu verður staðsett. Með tilkomu Borgarlínu mun Ártúnshöfði verða beintengdur miðborginni og ætla má að í nýja borgarhlutanum verði iðandi menning og mannlíf fyrir austurhluta borgarinnar. Við höfum átt í viðræðum við Grundarheimilin um samstarf þar sem þau yrðu rekstraraðili hjúkrunarheimilis og þjónustuíbúða,“ segir Sigurður Smári.

„Það er ánægjulegt að sjá að þessir aðilar hafa unnið sínar tillögur af metnaði í samtali og samráði við félög eldri fólks en einnig sótt sér alþjóðlega ráðgjöf við þróun og útfærslu lífsgæðakjarnana sem eru ólíkir þó allir miði að því að búa eldra fólki hamingjuríkt ævikvöld. Samhliða auknu framboði á íbúðum fyrir eldra fólk losnar um sérbýli og stærri eignir í öllum hverfum borgarinnar yngri kynslóðum til góða. Það er allt á fullu í Reykjavík og miklu máli skiptir að uppbygging og þróun borgarinnar haldi örugglega áfram!“ segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri að lokum.