Jöfursbás 11

137 íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur í náttúruparadís við sjóinn.

Jöfursbás 11, mynd: Axel Sig

UM JÖFURSBÁS

Hugmyndafræðin fólst í að byggja hagkvæmar íbúðir fyrir fólk sem vildi eignast þak yfir höfuðið án þess að þurfa að ráðstafa nær öllum framtíðartekjum sínum til margra áratuga í húsnæði. Við gerðum hlutina öðruvísi til að ná niður byggingakostnaði og lögðum áherslu á vistvænt samfélag, deililausnir og samvinnu.

STÆRÐ

Við Jöfursbás 11 hefur Þorpið vistfélag látið byggja fimm samtengd fjölbýlishús með 137 íbúðum, allt frá stúdíóíbúðum til fjögurra herbergja íbúða. Íbúðirnar hafa allar verið seldar ungu fólki og fyrstu kaupendum.

AÐRIR EIGINLEIKAR

Íbúarnir hafa aðgang að sameiginlegri vinnuaðstöðu og kaffihúsi, þvottahúsi, pósthúsi, reiðhjólageymslu, leik- og líkamsræktartækjum, grillaðstöðu og grænmetisgörðum. Umhverfið er stórbrotið, húsin standa við sjóinn og margar fallegar hjóla- og gönguleiðir munu prýða þetta nýja hverfi sem enn er í byggingu og mótun.

Um verkefnið

Verkefnið var unnið í samstarfi við Reykjavíkurborg með það fyrir augum að útvega ungu fólki og fyrstu kaupendum þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði. Þorpið vistfélag varð í öðru sæti í samkeppni borgarinnar um hönnun ódýrra íbúða árið 2018. Yrki arkitektar eru hönnuðir bygginganna, byggingu og frágang annaðist Eykt ehf. Verkefnið hefur gengið afar vel og voru umsóknir um íbúðir langt umfram framboð.

Fjöldi íbúða

137

Íbúðagerðir

1-4ra herbergja

Home icon

Sameign heildarstærð

710m2

Lóð

Rúmlega 5.600 m2

Hönnun

Yrki arkitektar

Bygging

Eykt ehf.

Upphafsdagur framkvæmda

6. maí 2020

Nánar

Íbúakjarni Þorpsins við Jöfursbás er samkvæmt skipulagi hluti af grænu íbúðarsvæði við sjó. Uppbygging reitsins einkennist af þyrpingu fjölbýlishúsa af ýmsum stærðum, byggingargerðum og hæðum. Leitast er við að skapa aðlaðandi umhverfi með samfélagslegri blöndun. Rammi hverfisins er samfellt, grænt svæði sem tengir saman stök hús og húsaþyrpingar. Andrými þetta er aðgengilegt fótgangandi og hjólandi ásamt sameiginlegum svæðum, s.s. matjurtargörðum, leiksvæðum, grillaðstöðu o.s.frv. Allar íbúðarbyggingar eiga það sameiginlegt að tengjast græna svæðinu á afgerandi hátt, bæði með göngu- og hjólastíg meðfram strandlengjunni, sjónásum og aðalinngöngum húsa. Íbúðir á jarðhæð erum með verönd sem skilur að almennings- og einkarými. Meginaðkoma bílaumferðar er um breiðgötu sem liggur á milli athafnasvæðis til suðurs og íbúðarsvæðis við sjó til norðurs.

Reykjavíkurborg hélt samkeppni um hönnun íbúðakjarna fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur á fyrir fram ákveðnum svæðum í borginni. Þorpið vistfélag og samstarfsaðilar höfnuðu í 2. sæti og voru því nr. 2 í röðinni um að velja sér svæði til uppbyggingar. Þar var sjávarlóðin Jöfursbás 11 í Gufunesi fyrir valinu.

Hugmyndafræði Þorpsins vistfélags að vistvænum og hagkvæmum íbúðum fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur var unnin af Runólfi Ágústssyni, verkefnastjóra, Guju Dögg Hauksdóttur, arkitekt og umhverfisfræðingi og Áslaugu Guðrúnardóttur höfundi bókarinnar Mínímalískur lífsstíll. Hugmyndafræðin gengur í stórum dráttum út á vistvænt, ódýrt smáíbúðahverfi þar sem einfaldleiki og umhverfisvitund eru lykilþættir.

Ungt fólk og fyrstu kaupendur sækjast eftir þaki yfir höfuðið án þess að þurfa að ráðstafa nær öllum framtíðartekjum sínum í húsnæðið. Ungt fólk vill ferðast og skoða heiminn og hefur takmarkaðan áhuga á því að vinnulaunin fari öll í húsnæðið. Það gerir aðrar kröfur til lífsins en þeir sem eldri eru, kýs einfaldleika, frelsi og græna kosti.

Mínímalískur lífsstíll fjallar meðal annars um það að hamingjan felist ekki í því að eiga sem mest heldur frekar að njóta þess sem maður á og velja það af kostgæfni. Með þá hugsun að leiðarljósi voru fyrstu íbúðir Þorpsins við Jöfursbás í Gufunesi hannaðar. Öll nútímaþægindi með sem minnstum tilkostnaði. Íbúðirnar litlar og allar eins utan fjölda herbergja. Herbergin mismörg, gengið inn í þau öll frá alrými (stofu og eldhúsi) og þar af leiðandi enginn gangur sem gjarnan er fremur dautt rými. Áhugasömum kaupendum var gefinn kostur á að skrá sig og tilgreina óskir um herbergjafjölda og íbúðirnar 137 voru skipulagðar með tilliti til þess. Þannig eru í Jöfursbási 11; 4 stúdíóíbúðir, 22 2ja herbergja, 61 3ja herbergja og 49 4ra herbergja íbúðir.

Algengar spurningar

Hér birtum við svör við þeim spurningum sem við fáum helst um verkefnið.

    Önnur verkefni

    Decor image 1 Decor image 2 Decor image 3