Áslaug Guðrúnardóttir, framkvæmdastjóri samskipta, markaðs- og sölumála hjá Þorpinu vistfélagi.

Svansvottaðar byggingar

Svansmerkið er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem tekur til alls lífsferils vöru og þjónustu. Þorpið vistfélag hefur það á sinni stefnuskrá að byggingar þess hljóti svansvottun. Mikilvægt er að huga að því strax við hönnun bygginganna því til þess að fá svansvottun þarf að uppfylla margskonar kröfur um dagsbirtu, hljóðvist, val á og notkun efna og margt fleira. Svansvottaðar byggingar eru betri fyrir umhverfið og heilsuna. Svansvottun byggingar þýðir að fyrirtækið vinni markvisst að því að draga úr umhverfisáhrifum í öllum lífsferli byggingarinnar.

Þorpið vistfélag hefur sett sér það markmið að sem flest verkefni þess hljóti umhverfisvottun og er það haft að markmiði varðandi þær byggingar sem félagið er nú með í hönnun; á Gufunesvegi og á Ártúnshöfða. Þess má geta að Reykjavíkurborg gerir kröfu um BREEAM vottun fyrir allar deiliskipulagsáætlanir á Ártúnshöfða.

Fjöldi svansvottaðra bygginga á Norðurlöndunum nær tvöfaldaðist á 2 árum samkvæmt samantekt frá Norræna svaninum árið 2021. Þróunin á Íslandi er jafnvel enn hraðari, þar sem fjöldi íbúðaeininga í ferli hefur þrefaldast á sama tíma. Á Norðurlöndunum voru í byrjun ársins 2021 tæplega 66.000 svansvottaðar íbúðir, einbýlishús og skólar annað hvort tilbúin eða í byggingu og er þetta tvöföldun frá stöðunni í janúar 2020. Þróunin á Íslandi er sambærileg, ef ekki hraðari, en samantektin 2021 sýndi að þá voru um 90 svansvottaðar íbúðir, einbýlishús og skólar á Íslandi í byggingu. Í byrjun árs 2020 voru aðeins 36 í byggingu.

Það er gleðiefni að nýlega var íslenskt timbur samþykkt til notkunar í svansvottuðum byggingum. Kröfur Svansins fyrir nýbyggingar og endurbætur gera ráð fyrir því að minnsta kosti 70% af timbrinu sem notað er í bygginguna sé FSC eða PEFC vottað og að restin sé stjórnað af þessum kerfum, „controlled wood“ (FSC) og „controlled sources“ (PEFC).

Timbur sem vottað er samkvæmt þessum vottunarkerfum kemur úr sjálfbærum skógum en einnig er búið að tryggja rekjanleika þess og fleira. Í samvinnu við Skógræktina, Bændasamtökin og Trétækniráðgjöf var farið í gegnum kröfur FSC/PEFC og þær skoðaðar í samræmi við íslenskt timbur. Niðurstaðan var sú að íslenskt timbur uppyllir þær kröfur sem Svanurinn telur ásættanlegt til að vera leyft í svansvottuð hús.

Viðmið Svansins fyrir nýbyggingar ná yfir íbúðarhús, skrifstofubyggingar og skólahús.

Þegar horft er til hringrásarhagkerfisins eru kröfur um úrgangsforvarnir, notkun endurnýjanlegra byggingarefna, skyldukröfur um endurnotkun byggingarvara og byggingarefnis og endurvinnslu byggingarefnis. Byggingar skulu vera byggðar í samræmi við hönnun þar sem tekið er mið af niðurrifi og aðlögunarhæfni.

Í loftslagskaflanum er nú skyldukrafa um loftslagsyfirlýsingu með tilliti til reglugerðar í hverju landi fyrir sig. Settar hafa verið strangar kröfur um byggingarefni með mikil áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda eins og steinsteypu, stál og ál. Gerð er skyldukrafa um að ekki sé notað jarðefnaeldsneyti til upphitunar, útþurrkunar o.s.frv. á byggingarsvæði og stigakrafa um að vinnuvélar séu knúnar endurnýjanlegu eldsneyti.

Í kaflanum um orkumál hafa verið sett ný viðmiðunarmörk fyrir orkunotkun bygginga. Krafan nær nú einnig til Íslands. Vatnssparandi blöndunartæki verða að skyldukröfu. Kröfur um innivist fjalla meðal annars um dagsbirtu, hitastig, hljóðvist og loftgæði innandyra, en hún tekur mið af innihaldi koltvísýrings í innilofti.

Þá eru í viðmiðum Svansins kröfur um efnavörur og innihaldsefni í byggingarvörum og ný skilgreining á mögulega hormónaraskandi efnum tekin upp. Lagt er til að raflagnir skuli vera halógenfríar.

Skyldukrafa hefur verið lögð til varðandi umhverfisvottaðar vörur sem notaðar eru í svansvottuðum byggingum.

Viðmið Svansins taka einnig til líffræðilegs fjölbreytileika og er skylda að kortleggja vistkerfi og búið er að hanna stigakerfi til þess að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika.

Viðmiðin hafa verið aðlöguð þannig að svansvottaðar byggingar falli undir flokkunarkerfi ESB fyrir grænar fjárfestingar, umhverfismarkmið og lágmörkun loftslagsáhrifa.

Nánari upplýsingar má finna á svanurinn.is

Áslaug Guðrúnardóttir