Samdráttur á byggingamarkaði
Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segir sterkar vísbendingar um samdrátt á byggingamarkaði á meðan eftirspurn eftir húsnæði sé mikil og fari vaxandi. „Það eru sterkar vísbendingar um samdrátt á byggingamarkaði en það getur alveg tekið tíma eftir svona sveiflu að ná upp framleiðslu íbúða aftur þannig að ég held að það sé mikilvægt að það sé reynt að stemma stigu við samdrætti á byggingamarkaði.“ Hann segir jafnframt að hækkun stýrivaxta hafi takmörkuð áhrif á eftirspurn eftir íbúðum: „Þannig að ég held að fólk sem þarf að standa frammi fyrir því að taka há lán til fjármagna íbúðakaup sé aðallega að horfa á verðtryggða vexti núna og þá skipti kannski ekki öllu máli hvort að stýrivextir hækka, ég held að þær séu búnar að hafa þau áhrif á fasteignamarkaðinn sem þær munu hafa.“
Í viðtali fréttastofu RUV við hann um málið kemur einnig fram að Landsmönnum fjölgar hratt og mun hraðar en mannfjöldaspár Hagstofunnar gerðu ráð fyrir. Frá ársbyrjun 2022 hefur íbúum hér fjölgað um nær fimmtán þúsund, en nýjasta spáin gerði ekki ráð fyrir þeim fjölda fyrr en á árinu 2025. Haldi þessi þróun áfram er líklegt að húsnæðiskostnaður eigi eftir að aukast, bæði hjá þeim sem eiga og leigja.“