Nöfn húsa: Kosið um kýr, gyðjur eða hvali

Kaupendur og umsækjendur íbúða í fimm fjölbýlishúsum í Gufunesi kjósa nú um nöfn á húsin sem þeir eru að kaupa og flytja inn í.

Kaupendur og umsækjendur íbúða í fimm fjölbýlishúsum í Gufunesi kjósa nú um nöfn á húsin sem þeir eru að kaupa og flytja inn í. Auglýst var eftir tillögum að nöfnum en um er að ræða 137 íbúðir í Jöfursbás 11 sem Þorpið vistfélag er að byggja í samstarfi við Reykjavíkurborg.

Í dómnefnd sátu þau Sigurborg Ósk Haraldsóttir borgarfulltrúi, Mörður Árnason íslenskufræðingur og Áslaug Guðrúnardóttir stjórnarformaður Þorpsins. Dómnefndin valdi þrjár tillögur sem væntanlegir íbúar kjósa nú á milli. Valið stendur um kýr, gyðjur eða hvali.

Tillaga A: Gyðju-húsin

Eirarhús – Friggjarhús – Freyjuhús – Nönnuhús – Sifjarhús

Gyðju-hugmyndin kallast með sínum volduga kvenleik á við karlhöfðingjanöfn gatnanna í hverfinu þar sem Jöfur, Hildir, Þjóðann og félagar ráða ríkjum. Hér eru saman komnar gyðjur lækninga, hjónabands, ásta, hins hreina og tæra, og svo gyðja kornsins með gullhaddinn sinn. Sameiginleg vinnuaðstaða og kaffihús heitir hér eftir sameiginlegum hörgi gyðjanna allra í Ásgarði samkvæmt frásögn Snorra Eddu: Vingólf.

Tillaga B: Hvala-húsin

Grindarhús – Hnýðingshús – Hrefnuhús – Mjaldurshús – Leifturshús

Hvalirnir koma beint úr sjónum sem setur svip sinn á Þorpið sem stendur niður við fjöru með útsýni yfir sundin. Þetta eru flestir smáir en knáir Íslandshvalir og bera hljómfögur nöfn, bæði karlkyns og kvenkyns. Kaffihúsið heitir svo eftir mikilfenglegum frænda þeirra: Hnúfubakur.

Tillaga C: Kýr-húsin

Búkolluhús – Gránuhús – Hyrnuhús – Skjölduhús – Skrautuhús

Kýr-hugmyndin kviknar sýnilega vegna bása-nafnanna á götum í hverfinu.– Kýrnar voru heimilisdýr umfram önnur í íslenska sveitasamfélaginu. Mjólkin skipti miklu, sérstaklega fyrir börnin, og var oft löng biðin eftir að Baula færi að bera. Kýrnar voru húsmóðurinni einkum kærar og stundum nutu heimilismenn beinlínis hlýjunnar af skepnunum, svo sem í hinni merkilegu fjósbaðstofu þar sem fólkið bjó og svaf fyrir ofan kýrnar. Heiti sameiginlega svæðisins/kaffihússin er augljóst í þessari hugmynd: Fjósið.

Niðursöður munu liggja fyrir í næstu viku.