Gufunesbryggja, Yrki arkitektar

Lóðavilyrði fyrir Gufunesbryggju samþykkt í borgarráði

Sjóböð, sundlaug, heilsulind, íbúðir, leikskóli, verslun og veitingastaður neðansjávar verða kjarni uppbyggingar í Gufunesi.

Borgarráð hefur samþykkt lóðavilyrði til Þorpsins vistfélags fyrir Gufunesbryggju og aðliggjandi lóð, en Þorpið sigraði í alþjóðlegri samkeppni á vegum C40 Reinventing Cities (samtök nær hundrað stórborga um allan heim sem vinna að því að gera borgir sjálfbærar og grænar) um svæðið.

Gert er ráð fyrir að á lóðinni verði blönduð byggð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, s.s. samgöngumiðstöð m.a. biðstöð fyrir bátastrætó, leikskóli, verslun og veitingastaður sem að hluta verður neðansjávar. Þá verður byggð upp heilsulind sem tengist ströndinni með sundlaug, sjósundsaðstöðu, gufuböðum, heitum pottum og hverskonar líkamsrækt. Við bryggjuna verður einnig opin aðstaða til sjóbaða fyrir almenning.

Hugsunin að baki tillögunni er að bryggjan verði allt í senn; félags-, atvinnu- og samgöngumiðstöð. Bryggjur hafa í gegnum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi, hvað varðar samgöngur, flutninga, veiðar og fleira. Um allan heim hafa eldri bryggjur orðið segull fyrir menningu og mannlíf.

Hönnunin byggir á staðaranda með áherslu á umhverfisvænar lausnir þar sem efni er endurunnið og endurnýtt úr umhverfinu. Þannig verða núverandi steyptar bryggjur nýttar sem grunnur undir húsin og viðurinn úr gömlu bryggjunni verður notaður sem klæðning á nýjar byggingar. Bryggjubyggingin rennur út á gömlu timburbryggjuna og eru nýju húsin hluti af endurbyggingu hennar og allt unnið með sjálfbærum hætti. Kolefnisfótspor verður jafnað, jafnt við bygginguna sjálfa sem og stýringu verkefnisins en Gufunesbryggjan er unnin eftir þeim ströngu umhverfisviðmiðunum sem C40 Reinventing Cities verkefnin krefjast. Þar er tekist var á við tíu lykiláskoranir, t.d. hringrásarhagkerfi, sjálfbærar samgöngur, sjálfbær byggingarefni, líffræðilegan fjölbreytileika og samfélagslegan ávinning. Bryggjan býr til grænar tengingar fyrir Gufunesið og Grafarvoginn með rafknúnum bátastrætó í miðborgina og gerir ráð fyrir göngu- og hjólabrú út í Viðey. Gufunesið verður þannig ekki endastöð í gatna og strætókerfi borgarinnar, heldur lifandi samgöngumiðstöð.

Samstarfsaðilar Þorpsins við vinnslu verkefnisins voru Yrki arkitektar, Environice, Exa Nordic, Vatnaskil, Eykt, Arctica Finance, Elding, World Class, True North og Kjarnasamfélag Reykjavíkur.