Borgarráð samþykkir viðræður við Þorpið um lífsgæðakjarna

Á fundi Borgarráðs 28. september 2023 var samhljóða samþykkt að fela skrifstofu borgarstjóra að ganga til viðræðna við Þorpið vistfélag og fjóra aðra aðila um uppbyggingu lífsgæðakjarna fyrir eldra fólk í Reykjavík. Hin fyrirtækin eru Reitir, Klasi, Íþaka (Eykt) og Köllunarklettur (Þingvangur).

Bókun Borgarráðs er gerð í kjölfar opins fundar í Ráðhúsinu 27. septmeber þar sem Þorpið kynnti hugmyndir sínar um mögulegt samstarf við Grundarheimilin um uppbyggingu á lífsgæðakjarna með hjúkrunarheimili og þjónustuíbúum á svæði félagsins á Ártúnshöfða.

Lífsgæðakjarnar eru heiti yfir nýja nálgun á húsnæði sem er einkum hugsað fyrir eldra fólk þar sem áhersla er á fjölbreytt búsetuform. Eignaríbúðum, leiguíbúðum og jafnvel hjúkrunarrýmum er raðað saman í aðlaðandi umhverfi með aðgengi að fjölbreyttri þjónustu og í bland við íbúðarhúsnæði fyrir aðra aldurshópa. Markmiðið er að tryggja áhugavert og aðlaðandi umhverfi, samveru og öryggi um leið og komið er til móts við ólíkar þarfir.