Byggja 300 svansvottaðar íbúðir á Ártúnshöfða

Þorpið Vistfélag byggir um 300 svansvottaðar íbúðir sem fyrsta áfanga í uppbyggingu Þorpsins á Ártúnshöfða.

Heildarframkvæmdakostnaður er áætlaður um fimmtán milljarðar króna. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir vorið 2023 og að fyrstu íbúðirnar verði afhentar á fyrsta ársfjórðungi 2024.

Um er að ræða þrjá íbúða- og atvinnuhúsnæðiskjarna þar sem áhersla er lögð á vistvænt grænt þéttbýli en íbúðirnar verða allar svansvottaðar og munu því fullnægja skilyrðum um græna fjármögnun fyrir kaupendur.

Þorpið stefnir að byggingu mismunandi íbúða til þess að tryggja félagslega blöndun og fjölbreytilegt lifandi samfélag. Auk íbúða sem seldar verða á almennum markaði er stefnt að því að tryggja ungu fólki og fyrstu kaupendum hluta íbúðanna á viðráðanlegu verði, annar hluti verði hugsaður fyrir aldraða auk þess sem hluti íbúða verði í eigu leigufélags. Á jarðhæðum er gert ráð fyrir verslunum, kaffihúsum- og þjónustustarfsemi meðfram væntanlegri Borgarlínu og við Krossmýrartorg til að skapa aðlaðandi götulíf.

Lóðin hallar á móti suðvestri til móts við Vogabyggð þannig að úr íbúðunum verður fallegt útsýni yfir Elliðaárósa og borgina á móti sól. Íbúðirnar liggja að endastöð fyrsta áfanga Borgarlínu við Krossmýrartorg. Þannig býðst íbúum nýtt val um samgöngumáta. Kaupendur geta því valið hvort þeir kaupi sér bílastæði eða nýti sér aðra samgöngukosti. Heimild er fyrir allt að 250 bílastæðum neðanjarðar á svæðinu.

Hönnun íbúða miðast við hágæða efni og frágang. Lögð verður áhersla á vistvænar götur, græn svæði, leiksvæði og gott aðgengi fyrir gangandi og hjólandi. Með svansvottun eru gerðar eru strangar kröfur um innihald skaðlegra efna í bygginga- og efnavöru, áhersla er lögð á góða loftræstingu og hljóðvist, orkunotkun sé hagkvæm og gæðastjórnun sé tryggð í byggingarferlinu. Einnig er gert ráð fyrir rekstrar- og viðhaldsáætlun fyrir byggingarnar.

Í fyrsta hluta þessa áfanga verða byggðar 55 íbúðir í 4-6 hæða húsum, svo verður farið í annan og þriðja áfanga í haust og næsta vetur. Alls mun Þorpið standa fyrir byggingu á um 1.000 íbúðum á Ártúnshöfða sem verða seldar á næstu 2-5 árum. Í heild er um að ræða byggingarrétt á 80.000 fermetrum ofanjarðar svo hér er um að ræða eitt stærsta íbúðaverkefni síðari tíma á höfuðborgarsvæðinu.