Ingólfur Bender, Fréttablaðið

Vaxtahækkanir stuðli að minna framboði á íbúðum

Ingólfur Bender aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins telur að vaxtahækkanir Seðlabankans geti stuðlað að minna framboði á nýju íbúðarhúsnæði sem leiði eftir 2-3 ár til aukins skorts og hærra verðs. „Þá verðum við aftur í þeirri stöðu að byggt hefur verið of lítið og skortur á íbúðum eykst. Hefst þá aftur vítahringurinn.“ Þetta kemur fram í Fréttablaðinu 23. mars 2023.

Vaxtahækkun Seðlabankans stuðlar að ójafnvægi á íbúðamarkaði og kemur illa við fjárfestingar í hagkerfinu og þar með forsendur langtímahagvaxtar hér á landi,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka Iðnaðarins. Hann segir vaxtahækkunina ekki koma að óvart en að hún komi illa við félagsmenn samtakanna.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði í morgun stýrivexti um heilt prósentustig. Vextir bankans hafa nú tífaldast frá miðju ári 2021 þegar vextir voru 0,75 prósent en mælast nú 7,5 prósent og hafa þeir ekki verið hærri í þrettán ár.

Ingólfur segir hækkun stýrivaxta mjög kostnaðarsamt tæki, það dragi allverulega úr fjárfestingum sem séu nauðsynlegar til að byggja hagvöxt til lengri tíma.

„Seðla­bankanum ber að bregðast við og mun gera það“
Að sögn Ingólfs leiðir hækkunin til minni eftirspurnar á íbúðamarkaði og aukins kostnaðar við byggingu íbúða sem komi niður á framboðinu. Ef illa fari geti það skapað annað ójafnvægi á íbúðamarkaði eftir 2 til 3 ár þegar hagkerfið hefur vonandi rétt úr kútnum aftur og eftirspurn aukist. „Þá verðum við aftur í þeirri stöðu að byggt hefur verið of lítið líkt og skortur á íbúðum eykst. Hefst þá aftur vítahringurinn.“

Ingólfur segir þetta mjög kostnaðarsamt fyrir hagkerfið vegna áhrifanna á fjárfestingar og þá ekki síst íbúðamarkaðinn. „Þetta er í sjálfu sér kunnuglegt stef og svo þegar efnahagsaðstæður fara að batna aftur þá er aftur hlaðið í annað húsnæðisátak til að mæta uppsafnaðri þörf og erum þá komin aftur í þennan sama spíral og við höfum verið í. Við þurfum náttúrulega að byggja hér í takt við langtíma þörf. Fólksfjölgunin er mjög mikil og það er umtalsverð þörf fyrir nýjar íbúðir inn á markaðinn.“

Vaxtahækkunin og þær hækkanir sem bankinn hefur gripið til vegna verðbólgunnar muni að öllum líkindum verða mjög kostnaðarsamar fyrir íbúðamarkaðinn og um leið markaðinn í heild.

Hefur á­hyggjur af 600 milljarða snjó­hengju sem hangir yfir heimilunum
„Við viðurkennum það alveg að verðbólgan er há og verðbólguvæntingar eru háar en það er þá sameiginlegt verkefni Seðlabankans, hins opinbera og aðila vinnumarkaðar að ná henni niður. Það er ekki síst þá hið opinbera sem núna er í kjarasamningum en það er mjög mikilvægt að þeir kjarasamningar lendi í takti við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Hið opinbera þarf að leggjast betur á árar með Seðlabankanum til að ná verðbólgunni niður,“ segir hann jafnframt.

Ingólfur segir ljóst að vaxtahækkanir bankans komi mjög illa við byggingariðnaðinn og mannvirkjagerðina. Hagnaður í greininni hafi ekki verið neitt umfram það sem almennt gerist.

Innan greinarinnar sé ólíkur gangur hjá einstaka fyrirtækjum þar sem sum hafi verið rekin með tapi og önnur með hagnaði undanfarið. Aðspurður hvort hann telji líklegt að einhver fyrirtæki muni leggja upp laupana segist Ingólfur ekki vilja spá fyrir um það. „Markmiðið virðist vera að berja niður fjárfestingar og hagvöxt til þess að ná verðbólgu niður og það er bara mjög kostnaðarsamt fyrir okkur.“