Hönnun og skipulag í Jöfursbási 11

Byggð Þorpsins-Vistfélags í Jöfursbási 11 í Gufunesi er brotin upp í þriggja til fimm hæða þyrpingu íbúðarhúsa sem hverfist um miðlægt torg og garða. Íbúðir eru samtals 137. Göngustígar í nágrenni eru tengdir inn og í gegnum í svæðið. Byggðinni er skipt upp í 3 áfanga. Áhersla er á vandaða hönnun og góða rýmisnýtingu íbúðanna sem eru af fjórum gerðum; stúdíó, tveggja, þriggja og fjögurra herbergja. Þrír stiga- og lyftukjarnar eru í íbúðarhúsunum og eru þau tengd saman um svalaganga og brýr. Byggðin hefur létt yfirbragð og er fjölbreytt í lita- og efnisvali. Um er að ræða 5 íbúðarhús, 3ja hæða í suðurhluta og 4ra hæða í vestur- og miðhluta og 5 hæða í austurhluta lóðarinnar. Staðsetning húsa innan hverfisins er ákvörðuð eftir veðurfræðilegri ráðgjöf til að mynda skjól um sólríka garða og torg.

Húsin eru verksmiðjuframleidd úr steyptum einingum sem gerðar eru innanhúss við bestu aðstæður. Burðarkerfi húsanna er byggt upp með forsteyptum svokölluðum samlokueiningum í útveggjum. Undirstöður eru forsteyptar en botnplata er staðsteypt. Innveggir á milli íbúða og íbúða og gangs eru úr forsteyptum einingum. Einangrun útveggja er forsteypt í samlokuútveggjaeiningarnar. Gluggar og hurðir eru úr timbri, formálaðir og settir í eftirá. Svalir og svalagangar eru úr forsteyptum einingum sem sitja á stálsúlum.
Í fyrsta áfanga eru 45 íbúðir, 41 íbúð í öðrum áfanga og 51 íbúð í þeim þriðja og fjórða. Sameiginleg sameign allra áfanga eru byggðir í öðrum áfanga utan hjóla- og vagnagreymslu sem er byggð samhliða fjórða áfanga.

Íbúðirnar eru á sjávarlóð nyrst í Gufunesi. Frá lóðinni er glæsilegt útsýni yfir Geldinganes og Viðey. Í hverfinu og meðfram lóðinni verða göngu- og hjólastígar á borgarlandi meðfram ströndinni sem tengjast grónum íbúðasvæðum í Grafarvogi fyrir sunnan og ofan þessarar nýju byggðar. Megin stígar innan lóðar eru malbikaðir, við aðkomu og innganga eru stéttar hellulagðar. Lögð er áhersla á algilda hönnun þar sem aðgengi allra er tryggt. Gert er ráð fyrir trjágróðri við megin gönguleiðir og til rýmismyndunar við dvalarsvæði.

Íbúðarhúsin mynda garðrými fyrir skjólgott torg, leikvöll og grasfleti. Torgið er við aðalinngang hverfisins við sameiginleg rými íbúa. Leik- og dvalaraðstaða er norðan megin gegnt ströndinni. Tekið er tillit til sólarátta og byggð skipulögð þannig að garðrýmin eru í góðu skjóli fyrir veðri og vindum. Lögð er áhersla á sameiginlegan frágang allra garðrýma. Við íbúðarbyggðina eru matjurtagarðar í landi Reykjavíkurborgar til afnota fyrir íbúa til ræktunar. Þar verður heimilt að gera vermireiti og gróðurskýli.

Sérnotafletir verða fyrir íbúðir á jarðhæðum og á svölum á efri hæðum sem snúa í suður eða vestur. Verandir á sérafnotareitum eru með föstu hellulögðu yfirborði og heimilt er að gróðursetja runnagróður við sérafnotareiti.