Um Gufunes, nýtt hverfi Reykjavíkurborgar

 

Deiliskipulag fyrir Gufunes, nýjasta hverfi Reykjavíkur, byggir á verðlaunatillögu hollensku arkitektastofunnar jvantspijker + Felixx sem árið 2016 hreppti fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um Gufunessvæðið. Í vinningstillögunni segir að Gufunes eigi að verða eins konar ventill fyrir ungt fólk sem kýs grósku og borgarbrag í stað úthverfa. Tillagan nýtir óhefluð umhverfisgæði og staðaranda sem grunn að samfélagi þar sem tækifæri, hagkvæmni og upplifun verða í forgrunni.
Leiðarljós og markmið uppbyggingar nýs hverfis í Gufunesi eru:

  • Þjóna starfsemi sem hentar illa innan borgarmarkanna / miðbæ Reykjavíkur.
  • Losa um pressu sem m.a. ferðamannaiðnaðurinn setur á miðborgina og önnur nærliggjandi svæði.
  • Skapa jákvæðar forsendur fyrir skapandi iðnað, frumkvöðlastarfsemi, menningu og atburði á sviði tónlistar, kvikmynda, lista, hönnunar og tísku, ásamt sprotafyrirtækjum og öðrum smágerðum og hreinlegum atvinnurekstri.
  • Þjóna ævintýralegum frumbyggjum og ungum fjölskyldum sem kann að meta óhefluð séreinkenni svæðisins og kýs að búa í suðupotti borgarbragsins.

 

Ylströnd verður við höfnina í um 500 metra fjarlægð frá byggingum Þorpsins vistfélags við Jöfursbás 11 og tengist því með göngu- og hjólastíg sem liggur með sjónum.

Í Gufunesi verður blönduð byggð fyrir íbúðir, smærri atvinnurekstur, skapandi iðnað, menningu, menntun, sýningar- og atburði, ferðamannaiðnað og sjálfbærar samgöngur. Gufunesið verður þannig einstakt hverfi í borginni þar sem iðnaðarmannvirki, manngert landslag, afþreying- og útivist og stórfengleg fjallasýn við sjávarsíðu mynda órjúfanlega heild.

Hér má sjá afstöðumynd nýs hverfis í Gufunesi. Sundahöfn til vinstri en Grafarvogurinn til hægri. Hverfið verður m.a. tengt við miðbæinn með vatnastrætó/ferju sem mun ganga frá bryggjunni í Gufunesi. Göngu og hjólastígur liggur frá torginu í Jöfursbási 11 upp í Grafarvog.

Í Gufunesi er þegar risin miðstöð kvikmyndagerðar á Íslandi, þar sem RVK Studios, Kukl og fjöldi annarra kvikmyndatengdra fyrirtækja er með starfsemi sína. Svona sjá hönnuðir hverfisins framtíðarskipulag þess fyrir sér.

Byggingar Þorpsins vistfélags við Jöfursbás 11 eru samkvæmt skipulagi hluti af grænu íbúðarsvæði við sjó. Uppbygging reitsins einkennist af þyrpingu fjölbýlishúsa af ýmsum stærðum, byggingargerðum og hæðum. Leitast er við að skapa aðlaðandi umhverfi með samfélagslegri blöndun. Rammi hverfisins er samfellt, grænt svæði sem tengir saman stök hús og húsaþyrpingar. Andrými þetta er aðgenglegt fótgangandi og hjólandi ásamt sameiginlegum svæðum, s.s. matjurtargörðum, leiksvæðum, grillaðstöðu o.s.frv. Allar íbúðarbyggingar eiga það sameiginlegt að tengjast græna svæðinu á afgerandi hátt, bæði með göngu- og hjólastíg meðfram strandlengjunni, sjónásum og aðalinngöngum húsa. Allar íbúðir á jarðhæð fá verönd sem skilur að almennings- og einkarými. Meginaðkoma bílaumferðar er um breiðgötu sem liggur á milli athafnasvæðis til suðurs og íbúðarsvæðis við sjó til norðurs. Í breiðgötunni er gert ráð fyrir töluverðu magni bílastæða á yfirborði sem skapar jákvæðar forsendur fyrir hagkvæmar íbúðargerðir. Áhersla er lögð á unga byrjendur á íbúðamarkaðinum, virka íbúaþátttöku, deilihagkerfi og umhverfismál.